Leikmannasamtök og formenn NHL-deildarinnar í íshokkíi komust að samkomulagi að engir leikmenn úr deildinni myndu taka þátt á Vetrarólympíuleikunum í ljósi stöðu heimsfaraldursins.

Kórónaveirufaraldurinn er búinn að setja verulegt strik í reikning NHL-deildarinnar sem hefur þurft að fresta fimmtíu leikjum til þessa.

Þar sem hvorki tókst að finna örugga lausn til að gæta þess að leikmenn myndu ekki smitast né finna tímasetningar fyrir leikina sem þegar er búið að fresta ákvað NHL að nýta sér rétt í samningi sínum til að banna leikmönnum að taka þátt.

Þetta verða því aðrir Ólympíuleikarnir í röð sem engir leikmenn úr NHL-deildinni, sterkustu íshokkídeild heims, verða meðal þátttakenda á Vetrarólympíuleikunum.