Spretthlauparinn Allyson Felix, ein sigursælasta frjálsíþróttakona Bandaríkjanna, hefur skotið fast á nýja þungunarrofslöggjöf, sem sett var á í heimalandi hennar fyrr í sumar.

Hæsti­réttur Banda­ríkjanna sneri fyrr í sumar einum sögu­frægasta dómi banda­rískrar réttar­sögu, og endaði þar með tæp­lega fimm­tíu ára dóma­for­dæmi sem heimilaði þungunar­rof.

„Hvenær sem réttindi fólks eru tekin í burtu er það algjört áfall,“ segir Felix við Reuters.

„Við erum að reyna að færa okkur áfram, ekki taka skref til baka. Við eigum eftir að berjast mun meira, við þurfum að undirbúa okkur fyrir það og leggja inn vinnuna.“

Niðurstaða hæstaréttar kom Felix mikið á óvart. „Maður býst ekki við einhverju svona á þessum tímum, en það er hér sem við erum stödd.“ Hún segist jafnframt ætla að nýta sinn vettvang til að berjast fyrir kvenréttinum.

Felix mun halda áfram að berjast, ekki síst dóttur sinnar vegna. „Það hafa svo margir barist fyrir þessum réttindum. Ég vil að dóttir mín alist upp í heimi þar sem ríkir jafnrétti á milli kynjanna. Ég held við séum langt frá því,“ segir frjálsíþróttadrottningin Allyson Felix.