Íþróttafélagið HK hefur farið fram á við bæjaryfirvöld í Kópavogi að skipuð verði undirbúningsnefnd vegna uppbyggingar keppnisvallar við Kórinn. Á völlurinn að vera úti en HK spilar heimaleikina sína inni í Kórnum.

Í bréfi frá HK til bæjarins segir að skráðum iðkendum í knattspyrnu hjá HK hafi fjölgað um 110 prósent á átta árum.

„Aðalstjórn HK vill með þessu erindi óska eftir að skipað verði í undirbúningsnefnd sem fyrst en eigi síðar en 1. september 2021 sem verði skipuð fulltrúum frá Kópavogsbæ og HK vegna uppbyggingar á nýjum keppnisvelli og stúku fyrir utan Kórinn,“ segir í bréfi HK.