HK komst í kvöld upp í efstu deild karla í handbolta með 32-27 sigri sínum gegn Víkingi í oddaleik liðanna um laust sæti í deild þeirra bestu á næsta keppnistímabili.

Víkingur komst raunar í 2-0 yfir í einvígi liðanna en HK hafði betur í þremur leikjum í röð og vann viðureignina 3-2.

Bjarki Finnbogason var markahæstur í liði HK í leiknum í kvöld með 12 mörk en Blær Hinriksson kom næstur með fimm mörk.

Arnar Gauti Grettisson var hins vegar atkvæðamestur hjá Víkingi með sjö mörk og Hjalti Már Hjaltason fylgdi fast á hæla hans með fimm mörk.

Fjölnir hafði áður tryggt sér farseðilinn í efstu deild með því að enda í efsta sæti 1. deildarinnar á leiktíðinni.