HK varð í kvöld fyrsta liðið til þess að fara með sigur af hólmi á móti Val í Olísdeild kvenna á yfirstandandi leiktíð. Liðin áttus við í Origo-höllinni að Hlíðarenda og lokatölur urðu 31-24 gestunum úr Kópavoginum í vil.

Díana Kristín Sigmarsdóttir átti góðan leik fyrir HK en hún skoraði 10 mörk og Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir komu næstar með sjö mörk hvor. Saga Sig Helgadóttir varði 12 skot í marki HK.

Lovísa Thompson skoraði mest fyrir Val eða sjö mörk talsins og Ásdís Þóra Ágústsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir bættu fjórum mörkum hvor í sarpinn.

Valur er í öðru sæti deildarinnar með 13 stig og er einu stigi á eftir Fram sem trónir á toppnum. HK og KA/Þór hafa hins vegar átta stig hvort lið í fjórða til fimmta sæti.