Karlalið FH í knattspyrnu hefur líkt og enska úrvalsdeildarliðið Manchester United séð betri daga. FH er í harðri fallbaráttu í Bestu deildinni og endurkoma Eiðs Smára Guðjohnsen til félagsins hefur ekki gengið eins og menn vonuðust eftir. Liðið hefur ekki unnið leik í deildinni undir stjórn Eiðs á tímabilinu.

Eiður Smári tók við stjórn FH á nýjan leik í seinni hluta júní eftir að Ólafur Jóhannesson var látinn fara sem þjálfari félagsins. FH er sem stendur í 10. sæti Bestudeildarinnar, einu stigi frá fallsæti og liðið fyrir neðan er Leiknir Reykjavík sem á tvo leiki til góða.

Flóra íslenskra hlaðvarpa sem fjalla um knattspyrnu er orðin breið og djúp en borið hefur á því að hlaðvarpsstjórnendur og sérfræðingar þáttanna séu sakaðir um að fara silkihönskum um Eið Smára Guðjohnsen, þjálfara FH. Hjörvar Hafliðason, umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Dr. Football tekur fyrir það. Hann segir vandamál FH-inga ekki kristallast í Eiði.

„Það er búið að tala um að við sem stjórnum hlaðvörpum séum að taka einhverja silkihanskameðferð á Eið Smára. Ég er búinn að vera að horfa á þessa leiki hjá FH og sá líka leikina áður en hann kom og ég hef ekkert mestar áhyggjur af þjálfaranum, miðað við hvernig spilamennskan er. Þetta var ekkert frábært hjá Óla og Bjössa, þeir eru frábærir þjálfarar,“ sagði Hjörvar Hafliðason í þættinum.