Hjörvar Steinn Grétarsson (2603) er einn Íslendinga með fullt hús vinninga að loknum tveimur umferðum á Kviku Reykjavíkurskákmótinu - Evrópumóti einstaklinga.

Í tilkynningu kemur fram að í umferð dagsins lagði Hjörvar að velli slóvakískan alþjóðlegan meistara, Tamas Petenyi (2463), þrátt fyrir að hafa staðið höllum fæti lengst af skákar.

FIDE-meistarinn Hilmir Freyr Heimisson (2309) sem lagði sterkan ungverskan stórmeistara í fyrstu umferðinni gerði í dag jafntefli við margreyndan eistneskan landsliðsmann, Kaido Kulaots (2548).

Hilmir er einn af þremur Íslendingum með 1,5 vinning en Hannes Hlífar Stefánsson (2519) og Héðinn Steingrímsson (2519) gerðu jafntefli í sínum skákum við sterka stórmeistara.

Enn eru 20 skákmenn með fullt hús eftir tvær umferðir.

Þriðja umferð fer fram á morgun laugardag klukkan 15:00 á Hótel Natura.
Mynd/Aðsend