Hjörvar Hafliðason segir sögu frá því í hlaðvarpsþætti sínum, Dr. Football, í dag þegar Eiður Smári Guðjohnsen skipti yfir til Stoke City frá Monaco. 

Eiður kom til Stoke árið 2010 en spilaði aðeins fjóra leiki fyrir félagið. Hann var engan veginn inni í myndinni hjá Tony Pulis, sem þá var stjóri Stoke. 

„Þegar hann var á leiðinni til Stoke City. Þá var ég við tölvuna og hugsaði að það þyrfti að hringja í þennan mann. Ég var búinn að horfa á hvern einasta Stoke-leik undir stjórn Tony Pulis og hugsaði: „Þetta er ekki lið fyrir Eið Smára Guðjohnsen,“ segir Hjörvar. 

Hjörvar starfaði hins vegar hjá Stöð 2 Sport sem sérfræðingur um enska boltann á þessum tíma. 

„Það var hringt í mig frá Stöð 2. Ég var beðinn um að tala um hvað þetta væru jákvæð skipti. Við þyrftum að selja áskriftir. Þá var ég mættur í viðtal um hvað mér litist vel á þessi skipti. En ég hafði enga trú á þessu,“ segir Hjörvar. 

Eiður Smári er, eins og flestir vita, einn allra fremsti knattspyrnumaður sem við Íslendigar höfum átt. Hann átti til að mynda góðu gengi að fagna með stórveldunum Barcelona og Chelsea. Hann er í dag þjálfari FH í Bestu deild karla.