Gary Lineker, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu og núverandi starfsmaður Breska ríkisútvarpsins segist aldrei á ævi sinni, fyrir kannski utan mörk sín fyrir enska landsliðið á HM, hafa fundið fyrir eins miklum kærleika og stuðningi í sinn garð.
Það eru þingmenn úr röðum breska Íhaldsflokksins sem hafa kallað eftir því að Lineker verði rekinn úr starfi en í gær deildi hann myndbandi á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem að innanríkisráðherra Bretlands, Suella Braverman, kynnti til leiks frumvarp sitt er sneri að „ólöglegum fólksflutningum“ yfir Ermarsundið.
Í myndbandinu var gefið til kynna að breska ríkið væri að eyða næstum 7 milljónum punda á dag í gistingu fyrir það fólk sem kæmi ólöglega yfir Ermarsundið til landsins. Frumvarpinu er ætlað að gefa breska ríkinu heimild til þess að hneppa þetta fólk í varðhald við komuna til landsins og senda það til baka þaðan sem það kom, ef það er talið öruggt land.
Ef ekki, þá geti fólkið verið sent til „öruggs þriðja heims ríkis, eins og Rúanda,“ líkt og innanríkisráðherrann orðaði það sjálf í myndbandinu.
Good heavens, this is beyond awful. https://t.co/f0fTgWXBwp
— Gary Lineker 💙💛 (@GaryLineker) March 7, 2023
Gefur lítið fyrir útskýringar ráðherrans
„Guð minn almáttugur, þetta er skelfilegt,“ skrifaði Lineker í færslunni þar sem hann deildi myndbandi innanríkisráðherrans og sagði frumvarpið fela í sér ómælda grimmd.
„Hér er ekkert stórt innstreymi flóttafólks,“ bætti Lineker við í færslu á Twitter. „Við tökum við miklu færri flóttamönnum en allar aðrar stærri Evrópuþjóðir. Þetta er bara ótrúlega grimm stefna sem er beint að viðkvæmasta fólkinu, stefna sem var notuð í Þýskalandi fyrir nokkrum áratugum síðan. Og svo er það ég sem er ekki í lagi?“
Innanríkisráðherrann tjáði sig um skrif Linekers í morgunþætti BBC í morgun, BBC Breakfast, og lýsti yfir vonbrigðum sínum með þau. Hún vildi ekki tjá sig um það hvort henni fyndist að BBC ætti að reka Lineker úr starfi.
Lineker hefur áður verið gagnrýninn á störf bresku ríkisstjórnarinnar í gegnum tíðina. Að sögn Daily Mail var hann tekinn á teppið hjá BBC eftir tíst sitt í gær en hann ætlar ekki að biðjast afsökunar á skirfum sínum.
Þessi vinsæli þáttastjórnandi Match of the Day sendi frá sér aðra færslu fyrr í dag þar sem hann segist aldrei á ævi sinni hafa fundið fyrir eins miklum kærleik og stuðningi í sinn garð líkt og hefur verið raunin í dag.
„Nema kannski þegar að ég skoraði fyrir England á HM. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir, þetta skiptir mig miklu máli. Ég mun halda áfram að tala fyrir og taka upp málstað þeirra sem eiga enga rödd.“
I have never known such love and support in my life than I’m getting this morning (England World Cup goals aside, possibly). I want to thank each and every one of you. It means a lot. I’ll continue to try and speak up for those poor souls that have no voice. Cheers all. 👊🏻
— Gary Lineker 💙💛 (@GaryLineker) March 8, 2023