Gary Lineker, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í knatt­spyrnu og nú­verandi starfs­maður Breska ríkis­út­varpsins segist aldrei á ævi sinni, fyrir kannski utan mörk sín fyrir enska lands­liðið á HM, hafa fundið fyrir eins miklum kær­leika og stuðningi í sinn garð.

Það eru þing­menn úr röðum breska Í­halds­flokksins sem hafa kallað eftir því að Lineker verði rekinn úr starfi en í gær deildi hann mynd­bandi á sam­fé­lags­miðlinum Twitter þar sem að innan­ríkis­ráð­herra Bret­lands, Suella Bra­ver­man, kynnti til leiks frum­varp sitt er sneri að „ó­lög­legum fólks­flutningum“ yfir Ermar­sundið.

Í mynd­bandinu var gefið til kynna að breska ríkið væri að eyða næstum 7 milljónum punda á dag í gistingu fyrir það fólk sem kæmi ó­lög­lega yfir Ermar­sundið til landsins. Frum­varpinu er ætlað að gefa breska ríkinu heimild til þess að hneppa þetta fólk í varðhald við komuna til landsins og senda það til baka þaðan sem það kom, ef það er talið öruggt land.

Ef ekki, þá geti fólkið verið sent til „öruggs þriðja heims ríkis, eins og Rúanda,“ líkt og innan­ríkis­ráð­herrann orðaði það sjálf í mynd­bandinu.

Gefur lítið fyrir útskýringar ráðherrans

„Guð minn al­máttugur, þetta er skelfi­legt,“ skrifaði Lineker í færslunni þar sem hann deildi mynd­bandi innan­ríkis­ráð­herrans og sagði frum­varpið fela í sér ó­mælda grimmd.

„Hér er ekkert stórt inn­streymi flótta­fólks,“ bætti Lineker við í færslu á Twitter. „Við tökum við miklu færri flótta­mönnum en allar aðrar stærri Evrópu­þjóðir. Þetta er bara ó­trú­lega grimm stefna sem er beint að við­kvæmasta fólkinu, stefna sem var notuð í Þýska­landi fyrir nokkrum ára­tugum síðan. Og svo er það ég sem er ekki í lagi?“

Innan­ríkis­ráð­herrann tjáði sig um skrif Linekers í morgun­þætti BBC í morgun, BBC Break­fast, og lýsti yfir von­brigðum sínum með þau. Hún vildi ekki tjá sig um það hvort henni fyndist að BBC ætti að reka Lineker úr starfi.

Lineker hefur áður verið gagn­rýninn á störf bresku ríkis­stjórnarinnar í gegnum tíðina. Að sögn Daily Mail var hann tekinn á teppið hjá BBC eftir tíst sitt í gær en hann ætlar ekki að biðjast afsökunar á skirfum sínum.

Þessi vin­sæli þátta­stjórnandi Match of the Day sendi frá sér aðra færslu fyrr í dag þar sem hann segist aldrei á ævi sinni hafa fundið fyrir eins miklum kær­leik og stuðningi í sinn garð líkt og hefur verið raunin í dag.

„Nema kannski þegar að ég skoraði fyrir Eng­land á HM. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir, þetta skiptir mig miklu máli. Ég mun halda á­fram að tala fyrir og taka upp mál­stað þeirra sem eiga enga rödd.“