UFC bardagakappinn Nate Diaz segist næstum því hafa hjólað í Dana White forseta UFC bardagasamtakanna á næturklúbbi í Las Vegas. Frá þessu greindi Diaz í viðtali við ESPN í dag fyrir bardaga hans gegn hinum umtalaða Khamzat Chimaev. '

Samstarf Nate Diaz og UFC hefur verið stormasamt og þá sérstaklega undanfarna mánuði þar sem Nate hefur sakað sambandið um að sniðganga sig. Hann fékk að lokum bardaga gegn hinum ósigraða Khamzat Chimaev sem er einn mest spennandi bardagakappi UFC síðari ára.

Nate segist ekki hafa hitt Dana White í langan tíma sökum deilnanna en sagði þó að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hann lendir í deilum við forsetann.

„Ég lamdi hann næstum því á næturklúbbi einu sinni. Þið hefðuð átt að vera þar. Hann var að tala tóma þvælu og ég reifst við hann, var reiður við hann. Þetta var fyrir löngu síðan," sagði Nate í viðtali við UFC.

Dana White gerði lítið úr atvikinu í kjölfarið. Sagði menn hafa verið að skemmta sér vel þarna um kvöldið.

Fram undan er lokabardaginn á samningi Nate Diaz við UFC og því gæti þetta verið hans síðasti bardagi fyrir bardagasamtökin á 15 ára ferli hans.