Alls söfnuðust um það bil 1,5 milljón króna í Minningarsjóð Ölla út frá viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur í Domino´s-deild karla sem fram fór í Ljónagryfjunni í gærkvöldi en þá voru 20 ár frá því að Örlygur Aron lést af slysförum. Þetta kemur fram í frétt á umfn.is.

Fyrir leikinn afhenti stjórn körfuboltadeildar Njarðvíkur fyrirliðanum Loga Gunnarssyni viðurkenningu fyrir að hafa leikið 300 leiki fyrir Njarðvík á Íslandsmóti í meistaraflokki. Logi er þar með orðinn sjöundi leikjahæsti leikmaður Njarðvíkur frá upphafi og á aðeins örfáa leiki eftir í að klifra ofar á listann til að taka fram úr Kristni Einarssyni.

Á meðan miðasala inn á leikinn rann öll óskipt í Minningarsjóðinn þá kom einkar skemmtileg tilkynning rétt áður en liðin voru kynnt til leiks. Særún Lúðvíksdóttir móðir Ölla kom þá út á gólf með búning sem reyndist síðasti leikbúningur sem Ölli lék í á ferlinum. Það var búningur frá Stjörnuleik KKÍ þann 15. janúar 2000.

Sjálfur búningurinn var keyptur af Coca Cola European Partners fyrir 500.000 kr. og rennur allt söluandvirði búningsins vitaskuld beint til Minningarsjóðs Ölla. Særún Lúðvíksdóttir afhenti Björgu Jónsdóttur rekstrarstjóra sölusviðs hjá CCEP búninginn sem svo síðar fól körfuboltadeild Njarðvíkur það hlutverk að varðveita hann til frambúðar.

Framkvæmdin í kringum leikinn var til fyrirmyndar hjá Stöð 2 Sport en fyrir og eftir leik var vegleg dagskrá þar sem samherjar, mótherjar, þjálfarar, vinir og ættingjar sögðu sögur af Ölla og minntust hans af hlýhug. Eftir leik var svo heimildarmynd Garðars Arnar Arnarasonar um Ölla endursýnd.

Framkvæmd leiksins var eins og best verður á kosið og niðurstaðan sú að Minningarsjóðurinn fékk þar myndarlega upphæð til áframhaldandi góðra verka ungum íþróttaiðkendum til heilla. Allir þeir sem mættu á leikinn sameinuðust í fallegri stund þar sem þessa frábæra körfuboltamanns var minnst með viðeigandi hætti.