Keflavík sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kom að Sverrir Þór Sverrisson hefði ákveðið að stíga frá borði sem þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu og að Hjalti Þór Vilhjálmsson myndi taka við keflinu.

Samkvæmt tilkynningunni óskaði Sverrir eftir því að frá að stíga frá borði í ljósi aukinna verkefni í vinnu. Hann hafi ekki séð fram á að geta sinnt báðum störfum að fullu.

Sverrir tók við liðinu síðasta sumar eftir að hafa náð góðum árangri með kvennalið félagsins árin þar áður. Undir hans stjórn féll Keflavík úr leik í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar gegn KR.

Hjalti Þór var aðstoðarþjálfari Inga Þórs Steinþórssonar hjá KR í vetur en hann hefur einnig þjálfað Þór Akureyri og Fjölni á Íslandi.