Phil Foden og Mason Greenwood verða ekki valdir í leikmannahóp enska karlalandsliðsins í knattspyrnu ef marka má frétt Sky Sports en Gareth Southgate mun tilkynna hópinn fyrir komandi leiki í Þjóðadeildinni á morgun.

Hins vegar muni Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, koma aftur inn í hópinn eftir að hafa verið kældur í sigrinum gegn Íslandi og jafnteflinu við Dani í kjölfar svaðilfarar sinnar til Grikklands í sumarfríi sínu.

Foden og Greenwood sem voru í landsliðshópi enska A-landsliðsins í fyrsta skipti þegar liðið mætti til Íslands brutu eins og frægt varð sóttvarnarreglur með því að hitta stúlkur á Hótel Sögu þar sem landsliðið dvaldi á meðan þeir voru hér á landi.

Southgate hefur verið tíðrætt um það í stjórnartíð sinni hjá enska landsliðinu að hann leggi mikið upp úr því að leikmenn liðsins hagi sér fagmannlega og af þeim sökum er talið að þjálfarinn muni refsa Foden og Greenwood fyrir uppátæki sitt.

Næstu leikir enska liðsins eru á móti Belgíu og Danmörku í Þjóðadeildinni og svo vináttulandsleikur gegn Wales.

Mason Greenwood verður líklega með Foden í skammarkróknum.
Fréttablaðið/EPA