Elín Edda Sigurðardóttir og kærasti hennar og hlaupafélagi, Vilhjálmur Þór Svansson eru staðsett í bænum Iten sem er lítill bær í 2400 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar hafa þau fengið hlýjar og góðar móttökur hjá innfæddum sem bjóða gesti sína velkomna með skilti þar sem stendur „Velkomin á heimili meistaranna“ (Welcome to the home of the champions).

Bærinn hefur efni á því að státa sig af afrekum sínum á hlaupasviðinu en þaðan hafa komið margir af fremstu langhlaupurum heims og þangað koma margir bestu hlauparar heims, bæði innfæddir og erlendir, saman til þess að æfa.

Þar á meðal eru núna komnir hlauparar sem eru að búa sig undir Ólympíuleikana sem fram fara í Tókýó næsta sumar. Þeirra á meðal má nefna Mo Farah sem þau Elín Edda og Vilhjálmur hittu á dögunum í lyftingasal á svæðinu, en hann tilkynnti nýverið að hann myndi gefa kost á sér í 10.000 metrum á Ólympíuleikunum í ár.

Fram undan eru stór verkefni hjá Elínu Eddu

„Hann var mjög viðkunnanlegur, spjallaði aðeins og var alveg til í mynd með okkur,“ segir Elín Edda um kynni sín af Farah í samtali við Fréttablaðið. „Það hentar mér vel að vakna við sólskin og fuglasöng, fallegt útsýni, borða baunir og maís í öll mál, hlaupa um í moldinni og einbeita mér að líkamlegri og andlegri vellíðan. Hér lifir fólk í núinu og ekkert stress, hakuna matata,“ segir Elín Edda enn fremur um dvöl sína í Keníu.

Elín Edda heldur svo áfram og segir: „Í seinustu viku hljóp ég alls rúma 130km í 2400 metra hæð. Hér er mikið af brekkum sem gerir það að verkum að maður þarf að hlaupa mjög „kontrolerað“ með púlsmæli til að brenna ekki út. Meðfram hlaupunum gerum við Villi yoga og öndunaræfingar daglega ásamt reglulegum styrktaræfingum og lyftingum. Svo höfum við farið í nudd annan hvern dag sem gerir mikið fyrir mann í svona miklu álagi.

Þetta allt mun leggja góðan grunn að næsta stóra verkefni,“ En þess ber að geta að Elín Edda mun keppa fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni sem fram fer í Póllandi í lok mars og í framhaldi af því hleypur hún sitt þriðja maraþon í Vínarborg í apríl.