Kraftframherjinn Giannis Antet­okounmpo fór á kostum í nótt er Milwaukee Bucks varð NBA-meistari í fyrsta skipti í fimm­tíu ár. Milwaukee Bucks vann 7 stiga sigur á Phoenix Suns, 105-98, í sjötta leiknum í úr­slita­ein­vígi NBA deildarinnar í körfu­bolta í nótt. Bucks unnu þar með fyrsta NBA-meistara­titil fé­lagsins frá árinu 1971 en liðið hefur ekki náð í úrslitin síðan 1973.

Giannis endaði með 50 stig, 14 frá­köst og 5 varin skot með 64% skot­nýtingu. Ó­trú­legast af öllu var að hann setti niður 17 af 19 víta­skotunum sínum en hann hefur átt afar erfitt með að hitta út víta­skotum sínum í úr­slita­keppninni.

Ótrúleg endurkoma

Bucks liðið vann úr­slita­ein­vígið 4-2 en liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum á útivelli og lenti 0-2 undir í ein­víginu. Fjórir sigrar í röði kláruðu hins vegar dæmið og fögnuðu Bucks sigri í sex leikjum í nótt.

Giannis, eða gríska undrið eins og hann er kallaður vestan­hafs, var valinn besti leik­maður úr­slita­ein­vígisins. Hann mun þar með vera einn af þremur leik­mönnum í sögu NBA-deildarinnar sem hafa verið valdir besti leik­maður deildarinnar (MVP), besti varnar­maður deildarinnar (DPOY) og besti leik­maðurinn í úr­slita­ein­víginu (FMVP).

Giannis, sem ólst upp sem inn­flytjandi á götum Grikk­lands, gat ekki haldið aftur af tárunum þegar úr­slitin voru ljós. Hann þakkaði liðsfélögunum sínum sigurinn og endaði ræðuna sína á að lofa öðrum titli sem aðdáendur í Fiserv Forum Arena í Wisconsin voru mjög ánægðir með.

Giannes Antetokounmpo í baráttu við Jae Crowder í nótt.
Ljósmynd/AFP

Stjörnupar Suns, bak­vörðurinn Devin Booker og leik­stjórnandinn Chris Paul, áttu erfitt upp­dráttar í upp­hafi leiks en þeir skoruðu saman­lagt fimm stig á dræmri skot­nýtingu. Booker var með 20% skot­nýtingu og Paul 33% skotnýtingu eftir fyrsta leik­hluta. Chris Paul náði vopnum sínum þegar leið á og endaði með 26 stig og 5 stoð­sendingar á 58% skot­nýtingu. Booker setti niður 19 stig og gaf 5 stoð­sendingar á 36% skot­nýtingu.

Mið­herjinn DeAndre Ayton, sem hefur verið mikil­vægur hlekkur í liði Suns átti einnig erfitt upp­dráttar en hann endaði með 12 stig, tók 6 frá­köst og varði 2 skot á 33% skot­nýtingu.

Um 16.000 þúsund á­horf­endur voru í Fiserv Forum í Wisconsin en yfir 65 þúsund að­dá­endur söfnuðust saman í „dádýragarðinum“ fyrir utan leik­vanginn til að horfa á leikinn á stórum skjá. Ljóst að í­búar Wisconsin borgar og Milwaukee-ríkis muni fagna langt fram eftir morgni enda lang­þráður titill.