Hinn skrautlegi John Daly sem vann á sínum tíma tvo risatitla þrátt fyrir óheilbrigðan lífsstíl utan vallar var rekinn af fyrsta risamóti ársins á öldungamótaröð PGA um helgina.

Daly sem varð 56 ára á dögunum er þekktastur fyrir skrautlegan fatnað, sérkennilega sveiflu og atvik utan vallar þar sem hann glímir við alkahólisma.

Þá er hann góður vinur Donald Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna.

Kylfingurinn gleymdi að skrifa undir skorkortið eftir tvo hringi á Regions Tradition mótinu sem er hluti af öldungamótaröð PGA-mótaraðarinnar og var því vísað úr keppni.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Daly er rekinn úr keppni á öldungamótaröðinni en honum var vísað fimm sinnum úr keppni á PGA-mótaröðinni á sínum tíma.

Daly sem vann tvo risatitla á skrautlegum ferli er meðal þátttakenda á PGA-meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn.