Aldís Kara Bergsdóttir einn albesti listskautari landsins undanfarin ár hefur ákveðið að láta gott heita á ferli sínum sem listskautari. Aldís, sem er aðeins 19 ára gömul, tilkynnti um ákvörðun sína með færslu á samfélagsmiðlinum Instagram.
,,Listskautar hafa verið allt mitt líf síðan ég steig á ísinn í fyrsta skiptið og nú eftir 15 ára feril hef ég tekið þá ákvörðun að leggja skautana á hilluna," segir í færslu Aldísar sem segist stolt af því sem hún hefur áorkað á skautasvellinu.
Aldís varð fyrsti íslenski skautarinn til að ná lágmörkum inn á Heimsmeistaramót unglinga sem og Evrópumeistaramót fullorðna, þá hefur hún verið valin íþróttakona Akureyrar síðastliðin 3 ár.
,,Þetta eru draumar sem litlu Aldísi hefði aldrei dottið í hug að hún myndi ná. Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn yfir árin, hann er ómetanlegur."