Hilmar Snær Örvarsson, skíðamaður úr Víkingi, hafnaði í þriðja sæti í svigi á móti sem var liður í Evrópumótaröð IPC og fram fór í Liechtenstein í gær. Þetta var lokadagur mótaraðarinnar þetta keppnistímabilið.

Hilmar Snær var annar eftir fyrri ferðina en smávægileg mistök í upphafi seinni ferðarinnar reyndust honum dýrkeypt og lauk hann þar af leiðandi keppni í þriðja sæti.

Aðstæður í Liechtenstein í gær voru fremur erfiðar, gott veður var á meðan keppninni stóð en mikið af nýjum og blautum snjó í brautinni. Sem fyrr var það Frakkinn Arthur Bauchet sem hafði sigur, en hann fór með sigur af hólmi í öllum fjórum keppnunum í standandi flokki á mótunum í Malbun síðustu dagana.

Fyrr í vikunni keppti Hilmar Snær í stórsvigi á landsmóti í Liechtenstein og svo á móti sem var hluti af Evrópumótaröðinni. Þar endaði hann annars vegar í fimmta sæti og hins vegar í sjötta sæti í þeirri grein.

Hilmar Snær lýkur þar af leiðandi keppni á Evrópumótaröðinni þetta árið með silfur og brons í svigi í farteskinu, en líklegast má telja að þetta hafi verið síðasta verkefni hans þetta tímabilið.

Í desember síðastliðnum var Hilmar Snær valinn Íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra í fyrsta skipti en hann var á síðasti ári fyrstur Íslendinga til þess að sigra Evrópumótaröð IPC í alpagreinum. Það gerði Hilmar Snær á lokamótum mótaraðarinnar í svigi í Króatíu í upphafi síðasta árs.

Þessi tvítugi skíðamaður úr Fossvoginum vann þrenn gullverðlaun í svigi á mótum á Evrópumótaröðinni í Slóvakíu síðasta vetur.

Þá tryggði hann sér sigur í heildarstigakeppninni í svigi á Evrópumótaröðinni, með því að vinna þrenn gullverðlaun og næla í eitt silfur á mótum sem haldin voru í Króatíu í febrúar í fyrra.