„Tilfinningin er geggjuð, markmiðið var að negla ferðirnar og ná í gull og það er frábært að það hafi gengið upp. Ég fann það um leið og ég kom í mark að ég hefði náð góðum tíma og var vongóður um að hefði náð að landa sigri," segir Víkingurinn Hilmar Snær Örvarsson sem varð í dag fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna gullverðlaun á alþjóðlegu móti í alpagreinum. Það gerði hann á móti sem haldið er í Slóvakíu og er hluti af Evrópumótaröð Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra .

„Mér leið raunar vel strax í morgun og fílingurinn var góður fyrir þessum ferðum. Upphitunin gekk vel og ég fann að færið var gott. Það var klaki sem er mér að skapi og ég fór jákvæður inn í ferðirnar. Það er líka gaman að ná þessum áfanga eftir að hafa verið nálægt því að næla í gull í sviginu í gær. Eftir góðan árangur í fyrra stefndi ég að því að komast á pall og vinna gull á þessu tímabili. Ég er ánægður með að það hafi nú tekist," segir Hilmar Snær enn fremur.

„Ég hef æft vel í vetur og farið reglulega í æfinga- og keppnisferðir erlendis. Ég náði til að mynda að æfa við frábærar aðstæður í Innsbruck í Austurríki fyrir mót sem fór fram þar. Svo hefur mér gengið vel á mótum undanfarið og að baki þeim góða árangri eru stífar æfingar. Ég hef verið að leggja svolitla áherslu á svigið í æfingum undanfarið en samt alveg haldið mér við í stórsviginu," segir hann um lykilinn að því að hann sé kominn svona framarlega.

„Nú stefni ég bara að því að halda áfram á sömu braut og ég vonast til þess að ná í gull þegar ég keppi í sviginu á morgun. Ég er í góðu formi þessa dagana og eins og ég sagði áðan hef ég æft svigið vel undanfarnar vikur. Þessi árangur í dag gefur mér mikið sjálfstraust og það er engin ástæða til þess að hætta þegar fyrsta gullið er í höfn. Maður veit hins vegar aldrei hvort að dagsformið skili manni á pall en ég vona það," segir þessi öflugi skíðamaður.

Hilmar Snær sem skíðar fyrir hönd skíðadeildar Víkings hefur stimplað sig rækilega inn sem einn af sterkustu svigmönnum heims í standandi flokki og er nú á hraðri uppleið upp styrkleikalistann í stórsvigi.

Næstu tvo dagana taka við keppnir í svigi hjá Hilmari Snæ á mótinu í Slóvakíu og í lok febrúarmánaðar keppir hann svo á lokamóti Evrópumótaraðarinnar í Zagreb.