Körfuboltamaðurinn Hilmar Smári Henningsson hefur skrifað undir samning við Stjörnuna en samningur hans við Garðabæjarfélagið er til tveggja ára.

Þetta kemur fram á facebook-síðu Stjörnunnar.

Hilmar Smári er hávaxinn skotbakvörður uppalinn hjá Haukum, lék eitt tímabil hjá Þór Akureyri en þaðan lá leiðin í spænska stórliðið Valencia.

Þar spilaði hann með unglingaliði Valencia í EBA deildinni og skoraði 16,4 stig, tók 4,3 fráköst og gaf 2,3 stoðsendingar í leik. Nýtingin hans í fyrra var til mikillar fyrirmyndar en Hilmar Snær var með 64% hittni í tveggja stiga skotum, 40,5% í þristum og 76,6% af vítalínunni.

Tilkynnt var í gær að Ægir Þór Steinarsson myndi ekki leika með Stjörnunni næsta vetur.