Hilmar Örn Jónsson nældi í bronsverðlaunin í sleggjukasti á lokamóti ársins í frjálsum íþróttum í bandarískum háskóla en Sindri Hrafn Guðmundsson lenti í fjórða sæti í spjótkasti.

Um er að ræða síðasta mót ársins þar sem aðeins besta frjálsíþróttafólk bandarískra háskóla komst að.

Hilmar náði kasti upp á 73,31 metra í gær, tæpum tveimur metrum frá eigin Íslandsmeti sem hann setti fyrr á árinu og var 0,8 metra frá því að næla í gullverðlaunin.

Hann var áður krýndur Austurdeildarmeistari í sleggjukasti þegar hann átti næst lengsta kast Bandaríkjanna í undankeppninni.

Sindri Hrafn var þremur metrum frá því að komast á verðlaunapall með kasti upp á 73,92 metra. Sigurkastið var heldur lengra eða upp á 86,62 metra.

Þetta var lokaár Hilmars í University of Virginia og hefur hann því lokið keppni fyrir skólann en Sindri á eitt ár eftir í Utah State.