Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handbolta, átti afar góðan leik þegar Magdeburg hafði betur gegn Kiel í toppslag í áttundu umferð þýsku efsu deildarinnar. Ómar Ingi skoraði sex mörk í leiknum og gaf jafn margar stoðsendingar.

Magdeburg er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar en liðið hefur raunar farið með sigur af hólmi í öllum leikjum sínum í þeim keppnum sem liðið. Í byrjun október varð Magdeburg heimsmeistari félagsliða en þar lagði liðið Álaborg að velli í undanúrslitum og Barcelona í úrslitaleik.

Á sínu öðrum tímabili í herbúðum Magdeburg hefur Ómar Ingi skorað 49 mörk og er fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar. Þá hefur Selfyssingurinn þar að auki gefið 36 stoðsendingar og er á þriðja sæti á lista yfir flestar stoðsendingar í deildinni.

Ómar Ingi var að vanda hógvær þegar Frétttablaðið ræddi við hann í aðdraganda stórleiksins við Kiel. „Við höfum verið að bæta okkur jafnt og þétt síðustu mánuðina og mér finnst við vera með meiri breidd en á síðasta tímabili. Þá lærðum við mikið að því að hversu mörgum stigum við töpuðum á móti liðum í neðri hluta deildarinnar,“ segir Ómar Ingi.

„Ég áttaði mig fljótlega á því að það er enginn auðveldur leikur í þýsku efstu deildinni og það þarf ávallt að vera á tánum. Mesta áskorunin er að halda sér ferskum andlega og líkamlega í þeirri miklu leikjatörn sem lið eins og Magdeburg er í yfir leiktíðina,“ segir þessi útsjónarsama hægri skytta.

Magdeburg varð síðast þýskur meistari árið 2021 en þá var Alfreð Gíslason við stjórnvölinn og Ólafur Indriði Stefánsson í lykilhlutverki hjá liðinu. Á síðasta gullaldarskeiði Magdeburg vann liðið svo Meistaradeild Evrópu árið 2002.

Auk þess að verða heimsmeistari bar Magdeburg sigur úr býtum í Evrópudeildinni og Ómar Ingi segist finna fyrir því að stuðningsmenn liðsins séu orðin langeygir eftir því að vinna þýsku efstu deildina á nýjan leik.

„Magdeburg er lið sem er ávallt í toppbaráttu og þetta er stórveldi með stóra og rótgróin stuðningsmannakjarna. Það er erfitt fyrir mig að segja hvort að liðið sé á pari við liðið sem skilaði síðustu stóru titlunum í hús hjá félaginu. Við erum hins vegar með lið sem getur klárlega unnið deildina og nú þurfum við bara að halda áfram að sýna þann stöðugleika sem við höfum verið að gera í upphafi leiktíðarinnar,“ segir Ómar Ingi um framhaldið.