Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðskona í körfubolta, sem leikur með Val er puttabrotin og verður fjarri góðu gamni í þrjár til fjórar vikur vegna þeirra meiðsla.

„Ég lenti í samstuði á æfingu á laugardaginn og það kom svo í ljós á sunnudaginn að þetta væri lítið brot. Eins og staðan er núna er talið að ég verði þrjár til fjórar vikur að jafna mig en ég fer í myndatöku aftur á mánudaginn til þess að endurmeta stöðuna," segir Hildur Björg í samtali við Fréttablaðið.

Hildur Björg sem gekk til liðs við Val frá KR í sumar skoraði 16 stig, tók 12 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar þegar Valur laut í lægra haldi gegn Breiðabliki í fyrstu umferð Íslandsmótsins. Val hefur hins vegar verið dæmdur sigur í þeim leik, 20-0, þar sem Blikar tefldu fram Fanney Lind Thomas þeim leik en hún átti að taka út leikbann í leiknum.

Valur átti að mæta KR í annarri umferð deildarinnar annað kvöld en þeim leik hefur verið frestað þar sem KR-liðið er í sóttkví eins og sakir standa. Næsti leikur Vals er þar af leiðandi á móti Fjölni á laugardaginn kemur.