Hildigunnur Einarsdóttir samdi á dögunum við Bayer 04 Leverkusen í Þýskalandi og verður því ekkert úr því að hún komi heim í Olís-deild kvenna fyrir næsta tímabil. Þetta staðfesti Hildigunnur í samtali við Fréttablaðið í gær.

Hún hefur leikið erlendis undanfarin sjö ár, nú síðast með Dortmund í Þýskalandi.

Leverkusen er sigursælasta liðið í þýskum kvennahandbolta með átta meistaratitla en uppskeran síðustu ár hefur verið rýr. Félagið var um árabil í fremstu röð en uppskeran eftir aldamót eru tveir bikarmeistaratitlar.

Á nýafstaðinni leiktíð lenti Leverkusen í fimmta sæti, tveimur sætum fyrir ofan Dortmund.

Hildigunnur fór fyrst út í atvinnumennsku þegar hún samdi við Tertnes í Noregi fyrir sjö árum. Hildigunnur hefur einnig leikið með Heid í Svíþjóð, Hypo í Austurríki þar sem hún vann tvöfalt og í Þýskalandi hefur hún leikið með Leipzig og Dortmund.

Hildigunnur hefur gælt við það að koma heim undanfarin tvö ár en líkt og síðasta sumar bauðst henni spennandi tækifæri með Leverkusen þar sem hún skrifaði undir tveggja ára samning.

„Það var gengið frá þessu áður en ég kom heim í frí til Íslands og þetta er bara virkilega spennandi. Þetta er stutt frá Dortmund þannig að flutningarnir gengu snöggt fyrir sig,“ segir Hildigunnur sem var búin að heyra í nokkrum íslenskum liðum.

„Það voru nokkur lið á Íslandi sem höfðu samband og hófu viðræður en ég setti það allt saman til hliðar þegar Leverkusen hafði samband,“ segir Hildigunnur í samtali við Fréttablaðið