Handboltakonan Hildigunnur Einarsdóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við Val og gengur til liðs við félagið í sumar.

Hildigunnur þekkir vel til á Hlíðarenda en hún lék með Val frá árunum 2006-2012 áður en hún hélt erlendis í atvinnumennsku og gekk í raðir Tertnes Håndball Elite. Hún hefur leikið erlendis síðan þá og hélt til Svíþjóðar eftir veru sína í Noregi og lék með BK Heid en færði sig um set sama ár til Þýskalands og samdi við Koblenz í Þýskalandi.

Þessi öflugi línumaður hefur leikið í Þýskalandi undanfarin 6 ár fyrir utan eitt tímabil með Hypo NÖ í Austurríki en hefur undanfarin 3 ár leikið með Borussia Dortmund og Bayer Leverkusen í þýsku Bundesligunni.

Hildigunnur hefur einnig verið áberandi með íslenska A-landsliðinu en hún hefur leikið 81 landsleik og gert í þeim 82 mörk

„Ég er rosa spennt að koma heim í Val. Ég er búin að vera 9 ár úti og finnst núna vera rétti tíminn til að koma heim og byrja að vinna og koma heim til fjölskyldunnar.

Ég veit að ég mun sakna boltans hérna úti en ég er það spennt að flytja til Íslands að ég veit að ákvörðunin er rétt. Ég er mjög ánægð að geta farið heim í Val og klárað ferlinn minn þar.” sagði Hildigunnur eftir að skrifað undir á Hlíðarenda.