Uppboðshaldarar búast við spennuþrungnu uppboði næstu vikurnar en opnað verður fyrir tilboð í einstakt körfuboltaspjald tengt körfuboltamanninum Lebron James í dag. Gert er ráð fyrir því að spjaldið fari á yfir 6 milljónir dollara en það tengist körfuboltaferli Lebron með Cleveland Cavaliers, Miami Heat sem og Los Angeles Lakers.
Spjaldið ber nafnið Triple Logoman, það var gefið út af spjaldaframleiðandanum Panini og er hluti af Flawless seríu fyrirtækisins. Á því má finna búta úr treyjum sem Lebron spilaði í með Cleveland, Miami og Los Angeles Lakers og er spjaldinu lýst sem heilaga gral íþróttasafngripa.
Um leið og þetta einstaka spjald var gefið út hófst mikil samkeppni meðal safnara um að finna það. ,,Besta samlíkingin við atburðarásina sem fór af stað er sagan um Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna þar sem allir reyndu að komast yfir gullmiða sem myndi koma þeim í súkkulaðiverksmiðjuna. En í þessu tilfelli er bara einn gullmiði í stað fimm," sagði Ken Goldin, framkvæmdarstjóri uppboðshaldaranna í samtali við Reuters.
Það tók ár að finna spjaldið. Það gerði safnara- og YouTube hópurinn Whatnot en myndband af fundinum má sjá hér fyrir neðan.
Goldin telur að spjaldið geti slegið við núverandi meti og orðið dýrasta íþróttaspjaldið. Það myndi þýða að spjaldið yrði selt á yfir 6,6 milljónir dollara en hafnaboltaspjald frá árunum 1909-19011 af Johannes Peter Honus Wagner á núverandi met.
Lebron James hefur skipað sér meðal bestu körfuboltamanna sögunnar. Hann er mikið eftirlæti safnara og mjög fágætt áritað nýliðaspjald af þessum nú fjórföldum NBA-meistara seldist á 5,2 milljónir Bandaríkjadollara í fyrra.
Triple Logoman spjald Lebron James fer á uppboð í dag og því lýkur þann 25. júní næstkomandi.