Upp­boðs­haldarar búast við spennu­þrungnu upp­boði næstu vikurnar en opnað verður fyrir til­boð í ein­stakt körfu­bolta­spjald tengt körfu­bolta­manninum Lebron James í dag. Gert er ráð fyrir því að spjaldið fari á yfir 6 milljónir dollara en það tengist körfu­bolta­ferli Lebron með Cle­veland Ca­vali­ers, Miami Heat sem og Los Angeles Lakers.

Spjaldið ber nafnið Trip­le Logoman, það var gefið út af spjalda­fram­leiðandanum Panini og er hluti af Flaw­less seríu fyrir­tækisins. Á því má finna búta úr treyjum sem Lebron spilaði í með Cle­veland, Miami og Los Angeles Lakers og er spjaldinu lýst sem heilaga gral í­þrótta­safngripa.

Um leið og þetta ein­staka spjald var gefið út hófst mikil sam­keppni meðal safnara um að finna það. ,,Besta sam­líkingin við at­burðarásina sem fór af stað er sagan um Kalla og súkku­laði­verk­smiðjuna þar sem allir reyndu að komast yfir gull­miða sem myndi koma þeim í súkku­laði­verk­smiðjuna. En í þessu til­felli er bara einn gull­miði í stað fimm," sagði Ken Goldin, fram­kvæmdar­stjóri upp­boðs­haldaranna í sam­tali við Reu­ters.

Það tók ár að finna spjaldið. Það gerði safnara- og YouTu­be hópurinn What­not en mynd­band af fundinum má sjá hér fyrir neðan.

Goldin telur að spjaldið geti slegið við nú­verandi meti og orðið dýrasta í­þrótta­spjaldið. Það myndi þýða að spjaldið yrði selt á yfir 6,6 milljónir dollara en hafna­bolta­spjald frá árunum 1909-19011 af Johannes Peter Honus Wagner á nú­verandi met.

Lebron James hefur skipað sér meðal bestu körfu­bolta­manna sögunnar. Hann er mikið eftir­læti safnara og mjög fá­gætt á­ritað ný­liða­spjald af þessum nú fjór­földum NBA-meistara seldist á 5,2 milljónir Banda­ríkja­dollara í fyrra.

Trip­le Logoman spjald Lebron James fer á upp­boð í dag og því lýkur þann 25. júní næst­komandi.