Víkingur Reykjavík og Malmö gerðu í kvöld 3-3 jafntefli á Víkingsvelli í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. Úrslitin kvöldsins þýða að Malmö vinnur einvígi liðanna 6-5 samanlagt og eru því komnir áfram í næstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Víkingar töpuðu fyrri leiknum á útivelli 3-2 og því var ljóst að þeir þyrftu að skora í kvöld til þess að eiga möguleika á sæti í næstu umferð. Liðið var án Kristals Mána Ingasonar sem fékk að líta rauða spjaldið í fyrri leiknum en aðalmarkvörður liðsins, Ingvar Jónsson sneri þó aftur í byrjunarliðið eftir meiðsli.

Malmö fékk dauðafæri strax í upphafi leiks, það kom sending inn fyrir vörn Víkinga en Ingvar Jónsson var vel á verði í markinu og bægði hættunni frá.. Þetta vakti heimamenn sem bitu strax frá sér og komu sér í ákjósanleg færi á fyrstu tíu mínútum leiksins.

Það var síðan Karl Friðleifur Gunnarsson sem kom Víkingum yfir á 15. mínútu eftir stórkostlegan undirbúning Pablo Punyed sem þræddi sig í gegnum miðjuna hjá Malmö. Staðan því orðin 3-3 í einvíginu.

Eftir markið þéttist leikurinn og liðin skiptust á að vera með vald á knettinum. Leikmenn Malmö settu meiri pressu á Víkinga og það var á 34. mínútu sem Veljko Birmančević jafnaði metin fyrir sænsku meistarana og þeir því komnir 4-3 yfir í einvíginu.

Pressa Malmö hélt áfram og á 44. mínútu bættu gestirnir við sínu öðru marki í leiknum. Þar var að verki Felix Beijmo og þetta reyndist með því síðasta sem gerðist í fyrri hálfleik.

Malmö byrjuðu seinni hálfleikinn líkt og þeir enduðu þann fyrri, með marki. Það var Anders Christiansen sem skoraði það mark og staðan því orðin 3-1 í leiknum og 6-3 í einvígi liðanna.

Þannig stóðu leikar allt þar til á 56. mínútu þegar að Nikolaj Hansen minnkaði muninn fyrir Víkinga eftir góðan undirbúning frá Davíði Erni Atlasyni. Staðan orðin 3-2 í leiknum og 6-4 í einvíginu fyrir Malmö.

Það ætlaði síðan allt um koll að keyra á 75. mínútu þegar að Karl Friðleifur Gunnarsson jafnaði leikinn fyrir Víkinga og á þeim tímapunkti skildi bara eitt mark liðin að í einvíginu.

Því miður dugði hetjuleg endurkoma Víkinga ekki til því fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum. Sænsku meistararnir fóru því með 6-5 sigur af hólmi í einvíginu og eru komnir í næstu umferð í undankeppni Meistaradeildarinnar.