Það var hart barist í Ungverjalandi í kvöld þar sem Ísland og Danmörk áttust við, í aðdraganda leiksins greindust sex leikmenn Íslands með COVID-19. Ekki var um að ræða neina aukvisa en þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson, Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Björgvin Páll Gústavsson, Ólafur Guðmundsson og Elvar Örn Jónsson greindust smitaðir.

Þrátt fyrir þessa miklu blóðtöku byrjaði íslenska liðið vel og var leikurinn jafn á öllum stundum framan af leik. Undir lok fyrri hálfleiks tókst Dönum aðeins að slíta sig frá íslenska liðinu með góðum kafla.

Markvarsla íslenska liðsins var ekki góð í leiknum og skildi það á milli þegar upp var staðið. Íslensku markverðirnir vörðu fimm bolta í leiknum á meðan danska teymið varði sextán.

Danir höfðu forystu allan seinni hálfleikinn en íslenska liðið reyndi sitt besta en náði ekki að gera leikinn mjög spennandi.

Ómar Ingi Magnússon var markahæsti leikmaður íslenska liðsins og skoraði hann átta mörk.

Næsti leikur Íslands er á laugardag þegar liðið mætir Frökkum klukkan 17:00. Ekki er ólíklegt að fleiri leikmenn liðsins greinist með veiruna fyrir þá viðureign.