Kólumbíumaðurinn James Rodriguez, sem lék á sínum tíma með knattspyrnuliðum á borð við Real Madrid, Everton og Bayern Munchen, er hylltur sem hetja eftir hárétt viðbrögð innan vallar þegar að andstæðingur hans í katörsku deildinni fór í hjartastopp.

James er nú leikmaður katarska liðsins Al Rayyan og í leik liðsins gegn Al-Wakrah í katörsku deildinni um síðastliðna helgi, hneig Ousmane Coulibaly, leikmaður Al-Wakrah, niður er hann fór í hjartastopp.

Twitter reikningur beIN Sports, segir James vera hetju. ,,Leikmaðurinn sinnti mikilvægu hlutverki í því að bjarga lífi Ousmane Coulibaly, sem fór í hjartastopp í leik á dögunum. James hjálpaði til með því að koma höfði Coulibaly í rétta stöðu svo hann gæti andað eðlilega."

Stuttu eftir það mætti læknateymi á svæðið og hélt endurlífgunartilraunum áfram.

Leikurinn var í kjölfarið á atvikinu flautaður af. Coulibaly var fluttur á sjúkrahús þar sem ástand hans er sagt vera stöðugt.