Staðan er fljót að breytast í fótbolta og er Joachim Löw á afar hálum ís þessa dagana sem þjálfari þýska karlalandsliðsins. Þýskaland olli miklum vonbrigðum á HM í Rússlandi árið 2018 og féll úr efstu deild Þjóðadeildarinnar sama ár, þó að líkt og Íslendingum hafi þeim verið bjargað með stækkun A-deildarinnar. Á þriðjudaginn fékk Þýskaland tækifæri að komast áfram í úrslit Þjóðadeildarinnar í fyrsta sinn, en þar fór allt í vaskinn. Þjóðverjum dugði jafntefli á Spáni en fengu rassskellingu á stærð við þá sem Þýskaland veitti Brössum á HM árið 2014. Var tapið gegn Spánverjum stærsta tap Þjóðverja í tæp 90 ár og stærsta tap Þjóðverja í keppnisleik frá upphafi.

Olivier Bierhoff, yfirmaður landsliðsmála hjá þýska knattspyrnusambandinu, ítrekaði stuðning við Löw í samtali við ARD eftir leikinn og sagði að Löw fengi að stýra liðinu á Evrópumótinu. Slíkar stuðningsyfirlýsingar líta yfirleitt vel út á blaði, en eru stundum hálfgerður dauðakoss þegar þjálfara er sagt upp stuttu síðar og var krísufundur haldinn í höfuðstöðvum þýska knattspyrnusambandsins í gær. Á Evrópumótinu næsta sumar er Þýskaland í geysisterkum riðli með ríkjandi heimsmeisturum Frakka, Evrópu- og Þjóðadeildarmeisturum Portúgals og Ungverjalandi, sem komst á mótið á kostnað Íslands.

Fyrir HM í Rússlandi hafði Löw aldrei mistekist að koma Þýskalandi í undanúrslit að minnsta kosti á stórmótum og virtist framtíðin björt sumarið 2017. Ungt lið Þýskalands, sem mátti titla sem varalið, sigraði í Álfukeppninni sama ár og U21 árs lið Þýskalands varð Evrópumeistari í sínum aldursflokki. Það tók fljótlega að halla undan fæti og ef farið er aftur til nóvembermánaðar 2017, rúm þrjú ár aftur í tímann, hefur Þýskaland aðeins unnið 14 leiki af 32. Ef sömu formúlu er beitt á árin þrjú þar áður, unnust 27 leikir af 36. Þjálfarinn sem varð að þjóðarhetju þegar Þýskaland vann heimsmeistaratitilinn, er nú hægt og bítandi að breytast í skúrk, sem nær ekki fram því besta úr þýska liðinu.

Löw hefur nú fjóra æfingaleiki til að fá liðið til að stilla saman strengina fyrir Evrópumótið næsta sumar. Ef spilamennska liðsins verður sú sama og liðið hefur sýnt undanfarin þrjú ár verður gleðin ekki langlíf í München þar sem Þýskaland leikur alla sína leiki í riðlakeppninni. Gæðin í leikmannahópnum og kröfurnar í Þýskalandi gera ráð fyrir atlögu að Evrópumeistaratitlinum og allt annað þykir vonbrigði.