Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, tilkynnti að hann myndi skila af sér minnisblaði til heilbrigðisráðuneytisins í dag um hertar aðgerðir vegna kórónaveirufaraldursins á Íslandi.

Hann greindi frá þessu á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Miðað er við að tillögurnar taki gildi sem fyrst og taki gildi í 2-3 vikur. Þá verði þær á landsvísu en ekki aðeins á Reykjavíkursvæðinu.

Það myndi líklegast þýða að flauta þyrfti Íslandsmótið í knattspyrnu af en undanfarna daga hafa félög fengið að æfa án snertinga í von um að tímabilið gæti hafist í byrjun nóvember.

KSÍ fundaði á dögunum þar sem niðurstaðan var að reynt yrði að ljúka Íslandsmótinu eins og hægt væri fyrir lok nóvembermánaðar.

Ljóst er að ef hertar aðgerðir verða teknar upp næstu 2-3 vikur er svo gott sem útilokað að koma lokaspretti Íslandsmótsins fyrir. Það væri þá tíu daga gluggi sem KSÍ hefði en lið eiga allt að fimm leiki eftir.