Spænska lögreglan hefur sett af stað sérstakt viðbragð á stöðum sem breskir ferðamenn og fótboltabullur sækja á Kanaríeyjum í tengslum við leik nágrannanna í Wales og Englandi á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í kvöld.
Leikið er í Katar á mótinu en vendingar síðustu daga á Kanaríeyjum, er varðar æstar fótboltabullur, hafa orðið til þess að öryggisgæsla verður hert til muna.
Kanaríeyjar eru vinsæll ferðamannastaður hjá Bretum sem þrá fátt heitar á þessum árstíma en að sóla sig og kæla sig niður til skiptis með ísköldum áfengum veigum.
Þá hefur það líklega slegið í gegn hjá þessari knattspyrnu elskandi þjóð að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu fer nú fram á óvenjulegum tíma í nóvember og desember í Katar og því hefur verið nóg að gera á knæpum Kanaríeyja.
Wales og England eru í sama riðli á HM og mætast í kvöld í lokaumferð riðlakeppni mótsins. Englendingar standa betur að vígi á meðan Walesverjar þurfa að treysta á guð og lukku til þess að komast í 16-liða úrslit eftir afar slæmt tap gegn Íran í síðustu umferð.
Það hefur verið í nægu að snúast hjá lögreglunni á Kanaríeyjum undanfarna daga í tengslum við æsta stuðningsmenn Wales og Englands á HM. Komið hefur til átaka milli þessara tveggja stuðningsmannahópa þar sem kappið hefur borið þá ofurliði.
Sky News greinir nú frá því að lögreglan á Spáni mun auka við viðbragð sitt á Kanaríeyjum í tengslum við leik Wales og Englands í kvöld til þess að koma í veg fyrir átök milli stuðningsmannahópanna.
Er þetta gert á helstu stöðunum þar sem enskir og velskir ferðamenn halda sig en myndbönd sem hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum sýna átökin milli hópanna þar sem hnefarnir hafa verið látnir tala.
England vs. Wales kicked off early in Tenerife last night 🤣 pic.twitter.com/LEB6iWzzN3
— Sunday League (@SundayShoutsFC) November 26, 2022