Sænska körfuknattleikssambandið tilkynnti í gær að Jonas Jerebko, leikmaður landsliðsins myndi ekki vera inn í myndinni hjá landsliðinu á næstinni eftir að Jerebko samdi við CSKA Moskvu.

Jerebko lék í tíu ár í NBA-deildinni í körfubolta, meðal annars með Golden State Warriors tímabilið 2018-19 þegar Warriors lék til úrslita en þurfti að horfa á eftir meistaratitlinum til Toronto Raptors.

Í yfirlýsingunni kemur fram að formaður sambandsins hafi rætt við Jerebko og útskýrt fyrir honum að með því að semja við rússneskt lið færi Jerebko gegn gildum sambandsins um að vera mótfallin innrásinni í Úkraínu.

Fyrir vikið sé hann ekki lengur inn í myndinni hjá sænska landsliðinu eftir níu ára landsliðsferil fyrr en hann yfirgefi rússneska félagið.

Þá hafa samstarfsaðilar Jerebko ákveðið að slíta samstarfinu við körfuboltamanninn en Jerebko varð á sínum tíma annar Svíinn í sögunni sem var valinn í nýliðavali NBA-deildarinnar.