Thierry Henry, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, segir Daniel Ek, eiganda Spotify hafa fullan hug á því að kaupa meirihluta í félaginu af núverandi eiganda, Stan Kroenke.

Henry segir í samtali við Skysports að Ek hafi gert kauptilboð í hlut Kroenke-fjölskyldunnar en hann hafi ekki enn fengið svar við því tilboði.

Ek mætti á nágrannaslag Arsenal og Tottenham Hotspur og var því viðstaddur þegar Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal og leikmenn liðsins glöddu stuðningsmenn Skyttanna með 3-1 sigri.

Þar sat Ek með Henry en talið er að Svíinn ætli að fá frönsku goðsönina hjá félaginu sem og aðra goðsögn í herbúðum Lundúnarfélagsins, Hollendinginn Dennis Bergkamp, í lið með sér nái hann að kaupa meirihluta í félaginu.

„Daniel er stuðningsmaður Arsenal frá blautu barnsbeini og ég held að hann muni má betur til stuðningsmanna liðsins en núverandi eigandi. Við ætlum að halda kyrry fyrir í Lundúnum og halda áfram að styðja liðið. Svo sjáum við hverju Kroenke-fjölskyldan svarar og tökum stöðuna út frá því," segir Henry.

„Þessi stundina erum við bara enn að fagna sigrinum gegn Tottenham Hotspur og vonandi verður áframhald á góðu gengi liðsins," segir hann en Arsenal situr í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir þennan mikilvæga sigur.