Samkvæmt fréttum franska fjölmiðla hefur Thierry Henry samþykkt að taka við þjálfun franska úrvalsdeildarfélagsins Bordeaux. 

Félagið er stjóralaust eftir að Gus Poyet var settur af eftir að hafa látið stjórn þess heyra það í kjölfar þess að framherjinn Gaetan Laborde var seldur til Montpellier.

Henry er aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins sem endaði í 3. sæti á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar. Hann starfaði einnig við þjálfun hjá Arsenal um tíma.

Hinn 41 árs gamli Henry er markahæsti leikmaður í sögu Arsenal en hann lék með félaginu á árunum 1999-2007. Hann lék seinna með Barcelona þar sem hann vann Meistaradeild Evrópu 2009.

Fyrrverandi samherji Henrys hjá Arsenal og franska landsliðinu, Patrick Viera, tók við Nice í sumar. Henry gæti núna farið sömu leið og tekið við liði í frönsku úrvalsdeildinni.