Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool og varafyrirliði enska landsliðsins, gagnrýndi þá stuðningsmenn sem bauluðu á Harry Maguire þegar nafn hans var lesið fyrir leik Englands og Fílabeinsstrandarinnar í gærkvöld.

Nokkrir stuðningsmenn á Wembley heyrðust baula þegar nafn Maguire var lesið en miðvörðurinn hefur átt erfitt uppdráttar með félagsliði sínu, Manchester United í vetur.

Þrátt fyrir að Maguire sé fyrirliði erkifjenda Liverpool í Manchester United blöskraði Henderson að heyra baulið og kom Maguire til varnar.

„Ég skil ekki hvað gerðist á Wembley í kvöld (í gær.). Harry Maguire hefur verið lykilmaður fyrir enska landsliðsins. Án hans hefðum við ekki komist jafn langt í síðustu tveimur stórmótum. Að baula á hann, á heimavelli, án tilefnis? Hvert erum við komin? Það sem átti sér stað í kvöld var ekki réttlátt og sem leikmaður sem vill vinna titla með Englandi tel ég mig vera heppinn að deila búningsklefa með honum.“