Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins, Liverpool, undirgekkst í vikunni aðgerð vegna nárameiðsla sem hann varð fyrir í leik liðsins gegn Everton um síðustu helgi.

Fram kemur í tilkynningu Liverpool að að endurhæfing Henderson sé nú þegar hafin og búast megi við honum aftur inni á knattspyrnuvellinum að loknu landsleikjahléi í apríl næstkomandi.

Henderson missir þar af leiðandi af næstu fimm leikjum Liverpool hið minnsta en liðið sækir Sheffiel United heim í ensku úrvalsdeildinni á sunnudagskvöldið kemur.

Þar á eftir koma deildarleikir gegn Chelsea, Fulham og Wolves og seinni leikur Liverpool gegn RB Leipzig í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Fyrirliðinn gæti verið klár í slaginn þegar Liverpool mætir Arsenal í deildinni í fyrsta leik sínum eftir landsleikjahléið.