Jordan Henderson, fyrirliði karlaliðs Liverpool í knattspyrnu, verður fjarri góðu gamni þegar liðið fær Arsenal í heimsókn á Anfield í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar á mánudaginn kemur.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði á blaðamannafundi í dag að Henderson þyrfti á hvíld að halda en fyrirliðinn spilaði fyrri hálfleikinn þegar liðið lagði Chelsea að velli í annarri umferð deildarinnar um síðustu helgi. Henderson átti þar sendingu sem varð til þess að Sadio Mané slapp einn í gegnum vörn Chelsea. Andreas Christensen elti Mané uppi, braut á honum og var vísað af velli með rauðu spjaldi.

Joël Matip er sömuleiðis á meiðslalistanum en Klopp var hins vegar nokkuð viss um að Joe Gomez myndi vera búinn að jafna sig af þeim meiðslum sem héldu honum utan vallar í sigrinum gegn Chelsea í deildinni og Lincoln City í enska deildabikarnum í tæka tíð fyrir stórleikinn við Arsenal.

Liverpool og Arsenal hafa bæði haft betur í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni en auk þess að vinna Chelsea bar Liverpool sigurorð af Leeds United í fyrstu umferðinni.