Manchester United tilkynnti í dag að Ragnick myndi taka við sem bráðabirgðastjóri út yfirstandandi tímabil. Hann mun síðan færa sig yfir í ráðgjafahlutverk hjá félaginu á tveggja ára samningi.

Carragher telur Manchester United vera að taka skref í rétta átt með ráðningu Ragnicks, sem er oftar en ekki nefndur sem guðfaðir Gegenpressen leikstílsins.

,,Þetta er mjög jákvætt miðað við hvaða leikstíl hann vill að fótbolti sé spilaður eftir. Bestu lið Evrópu, þar á meðal þrjú lið í ensku úrvalsdeildinni, spila öll eftir þeirri leið sem Ragnick vill að sé spiluð," sagði Jamie Carragher á Sky Sports.

Eitt af markmiðunum á þessu tímabili hjá Manchester United verður, að mati Carragher, að halda liðinu í Meistaradeild Evrópu en hann telur helsta verkefni Ragnicks vera að finna eftirmann sinn og framtíðar knattspyrnustjóra Manchester United.

,,Topparnir hjá félaginu munu leita ráða hjá honum. Ragnick mun vilja að næsti knattspyrnustjóri félagsins spili knattspyrnu eins og hann sjálfur vill gera það."

Carragher telur þó að það muni taka tíma fyrir Manchester United að innleiða hápressuna sem felst í Gegenpressen leikstílnum. En fyrst félagið vilji fara í þá átt þá hafi það verið nauðsynlegt hjá þeim að ráða Ragnick til starfa.

,,Manchester United hefur ekki verið með skýra áætlun í því hvernig félagið vill vinna fótboltaleiki. Þessi maður hefur hins vegar skýra áætlun," sagði Jamie Carragher, sérfræðingur Sky Sports um enska boltann.