Will Buxton, Formúlu 1 blaðamaðurinn virti segir að á endanum hafi of mörg mistök á nýafstöðnu tímabili séð til þess að Mattia Binotto er nú að fara inn í sinn síðasta mánuði í starfi liðsstjóra Ferrari.

Ferrari sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem greint var frá starfslokum Binotto sem hefur starfað með liðinu í yfir 28 ár, nú síðast sem liðsstjóri.

,,Ég finn til með Mattia," skrifar Buxton í færslu á samfélagsmiðlum. ,,Vann keppnir og endaði í 2. sæti með Ferrari og ökumann liðsins í báðum stigakeppnum og náði þeim markmiðum sem sett voru fram í langtímaáætlun liðsins."

Hins vegar hafi tímabilið ekki staðist væntingar.

,,Það var möguleiki á heimsmeistaratitli en of mörg mistök voru gerð."

Nú sé spurningin fyrir Ferrari hvernig liðið getur unnið áfram úr stöðunni með nýjum liðsstjóra.

Ferrari er sögufrægasta lið og það sigursælasta í Formúlu 1 með 16 heimsmeistaratitla í flokki bílasmiða.

Hins vegar er staðreyndin sú að liðið hefur verið að ganga í gegnum afar erfiða tíma þar sem langt hefur liðið frá síðasta titli þess.

Ferrari vann síðast heimsmeistaratitil árið 2008, þá í flokki bílasmiða. Liðið hefur reynt margt en sýndi í upphafi tímabils burði til þess að snúa aftur á sigurbraut.

Hins vegar, líkt og Buxton greinir frá í sinni færslu á samfélagsmiðlum, gerði liðið of mörg mistök á tímabilinu og á endanum var einhver látinn taka ábyrgð.

Það gerði skipstjórinn sjálfur, Mattia Binotto liðsstjóri Ferrari en óvíst er hver tekur við stjórnartaumunum þó svo margt bendi til þess að það verði Fréderic Vasseur sem starfar nú hjá Alfa Romeo.

Tilkynning Ferrari ku að hafa komið mörgum í opna skjöldu því ekki er langt síðan að Ferrari gaf út yfirlýsingu um að staða Binotto væri örugg. Slíkar stuðningsyfirlýsingar eru hins vegar taldar marka endalok í heimi íþrótta og oftar en ekki kallaðar koss dauðans.