„Það var í raun alger himnasending að fá tilboð um að taka við Liechtenstein á þeim tíma sem tilboðið kom. Ég var nýhættur störfum fyrir KSÍ og það var spennandi að fá tækifæri til þess að vera aðalþjálfari hjá landsliði. Svo var mikill kostur að geta starfað nálægt heimili mínu í Þýskalandi,“ segir Helgi í samtali við Fréttablaðið, en hann var aðstoðarþjálfari Heimis Hallgrímssonar hjá íslenska karlalandsliðinu í tvö ár frá 2016 til 2018. Helgi lét af störfum líkt og Heimir gerði eftir að hafa stýrt liðinu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi sumarið 2018.

Þegar Helgi tók við stjórnartaumunum hjá Liechten­stein var liðið í 181. sæti heimslist­ans og fram undan var riðlakeppnin fyrir EM 2022 þar sem lærisveinar hans voru með Ítalíu, Finnlandi, Grikklandi, Bosníu, og Armeníu í riðli. „Það var alveg ljóst þegar ég tók við starfinu að það var ekki nein krafa á að sækja úrslit í þessum riðli. Bara þróa liðið áfram og freista þess að bæta leikmenn liðsins. Mér varð strax ljóst að leikmenn liðsins, sem eru allir áhugamenn, skorti úthald til þess að takast á við leikmenn í hæsta gæðaflokki. Ég fékk því Sebastian Boxleitner til þess að koma leikmönnum liðsins í líkamlegt form. Ég fékk svo lítinn tíma í undirbúning fyrir fyrsta leik í undankeppninni, þannig að það var gulls ígildi að ég fékk Guðmund Hreiðarsson til þess að aðstoða mig sem og þann sem hafði verið aðstoðarmaður Rene Pauritsch sem stýrði liðinu áður en ég tók við,“ segir hann um fyrstu vikurnar í starfi.

„Árangurinn í undankeppninni var vel ásættanlegur. Við vorum inni í mörgum leikjum og náðum í tvö stig. Það var mjög gaman að ná í stigið í Grikklandi og þeim úrslitum var vel fagnað af stuðningsmönnum liðsins. Í leiknum á eftir gerðum við jafntefli við Armena en það hafði aldrei gerst áður í sögu Liechtenstein að liðið fengi stig í tveimur leikjum í röð.

Vissulega fengum við skelli en það er bara eðlilegt að mínu mati. Í þeim leikjum sem við töpuðum stórt kom munurinn á úthaldi atvinnumanna og áhugamanna bersýnilega í ljós. Við vorum oft að halda liðunum í skefjum framan af leik en þegar leið á leikina fór að draga af okkur. Það var til dæmis þróunin í heimaleiknum við Ítali.

Helgi huggar niðurlúta leikmenn Lichtenstein eftir tap gegn Grikkjum
fréttablaðið/getty

Þeir voru lengi að brjóta okkur á bak aftur og við fengum færi til þess að komast yfir og jafna metin í þeim leik. Það var mikið hrós fannst mér þegar Roberto Mancini sagði á blaðamannafundi eftir leikinn að þeir hefðu einfaldlega ekki fundið nein svör við leikskipulagi okkar. Varnarleikur okkar hefði verið mjög vel útfærður,“ segir Helgi um frammistöðu Liechtenstein í undankeppninni.

„Eftir að undankeppninni lauk stóð til að halda áfram að bæta leikmenn liðsins og þróa leik liðsins enn frekar. Til stóð að fara í æfingabúðir í Möltu fyrr á þessu ári og spila nágrannaslag við Sviss, þar sem átti að leggja mikið í umgjörð þess leiks. Kórónaveirufaraldurinn varð hins vegar til þess að ekkert varð úr þeim plönum. Þar sem deildin í Liechtenstein er áhugamannadeild var deildinni hætt og leikmenn mínir höfðu þar af leiðandi ekki æft með liðum sínum svo mánuðum skipti,“ segir þjálfarinn um síðustu mánuði í starfi sínu, en á þessu ári hefur liðið spilað sex leiki, haft betur í tveimur, gert tvö jafntefli og beðið ósigur í tveimur.

„Ástæða þess að ég ákveð að hætta á þessum tímapunkti er að það er erfitt að vera í starfi þar sem þú stjórnar ekki aðstæðum. Við höfum ekki getað æft eins mikið og ég vildi á þessu ári og þá hafa leikmenn ekki æft knattspyrnu og leikið með liðum sínum lungann af árinu. Það á ekki vel við mig að hanga og bíða eftir að hlutirnir gerist. Mig langar að komast í starf þar sem ég er daglega úti á æfingavelli að undirbúa lið fyrir reglulega leiki. Svo er því ekki að leyna að keppnismaðurinn í mér á erfitt með að taka því að tapa jafn mörg leikjum og ég gerði í stjórnartíð minni hjá Liechtenstein.

Ég hef fengið nokkur tilboð um þjálfun og svo var eitt atvinnumannafélag sem falaðist eftir kröftum mínum sem yfirmaður knattspyrnumála. Mér fannst hins vegar réttast að klára samninginn hjá Liechtenstein áður en ég hæfi störf annars staðar.

Það mun því koma í ljós í upphafi næsta árs hvert næsta verkefni verður hjá mér. Eina sem ég get sagt er að áhuginn er mestur í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Svo hugnast mér meira að fara í þjálfun en að gerast yfirmaður knattspyrnumála. Ég kann mun betur við mig á æfingavellinum en inni á skrifstofu. Ég útiloka hins vegar ekki neitt og er til í bæði félagsliðafótbola og að taka við landsliði aftur,“ segir Helgi sem hefur búið í Þýskalandi síðan árið 2003 og þjálfað í Þýskalandi og Aust­ur­ríki. Hann þjálfaði þýska liðið Pful­len­dorf og aust­ur­rísku liðin Austria Lustenau, Wiener Neusta­dt og Ried áður en hann hóf störf fyrir KSÍ sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins.