Knattspyrnudeild ÍBV sendi frá sér tilkynningu síðdegis í dag þar sem fram kemur að Helgi Sigurðsson hafi látið af störfum sem þjálfari karlaliðs félagsins.

Helgi hefur þjálfað liðið síðustu tvö keppnistímabil en undir hans stjórn komst liðið upp í efstu deild á dögunum. Fram kemur í yfirlýsingunni að Helgi vilji búa nær fjölskyldu sinni og hyggist flytja á höfuðborgarsvæðið.

„Eftir tvö ár sem þjálfari meistaraflokks karla hjá ÍBV hefur Helgi Sigurðsson óskað eftir að hætta með liðið eftir yfirstandandi keppnistímabil.

Frá því ÍBV og Helgi hófu samstarf hafa aðstæður hans breyst og óskaði hann eftir að fá að hætta til að geta varið meiri tíma með fjölskyldunni. Knattspyrnuráð samþykkti beiðni Helga og líkur sem hér segir samstarfi okkar í mesta bróðerni.

ÍBV tryggði sér sæti í efstu deild í síðasta leik og náði þar með markmiði sínu í sumar með glæsibrag. Knattspyrnuráð vill þakka Helga fyrir samstarfið og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni," segir í tilkynningu ÍBV.

Heimir Hallgrímsson, sem verið hefur án þjálfarastarfs síðan hann hætti hjá Al Arabi um síðustu áramót og Hermann Hreiðarsosn sem kom Þrótti Vogum upp í 1. deild á þesasri leiktíð hafa verið orðaðir við þjálfarastarfið hjá ÍBV í fjölmiðlum undanfarið.