„Við erum Íslendingar og trúum því að við getum unnið alla leiki sem við förum í. Ef við spilum hörkuvörn og setjum skotin fyrir utan ofan í getum við staðið í þessum liðum,“ segir Helena Sverrisdóttir í samtali við Fréttablaðið. 

Helena hefur verið langbesti leikmaður Íslands í undankeppni EM 2019. Hún er með 23,5 stig, 8,0 fráköst og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í undankeppninni. Íslenska liðinu hefur gengið erfiðlega að halda út í undankeppninni og oftar en ekki gefið mikið eftir í seinni hálfleik leikjanna. 

„Það þýðir ekki bara að spila fyrri hálfleikinn. Sá seinni er líka hluti af leiknum. Við verðum að undirbúa okkur vel og vera með það bak við eyrað að þegar seinni hálfleikurinn byrjar þurfum við að stíga á bensíngjöfina og gefa ekki eftir. 

Það þarf að koma framlag frá öllum. Það þurfa allir að skila sínu, ekki bara 2-3 leikmenn,“ segir Helena sem leikur sinn 69. landsleik í dag.