Körfuknattleiksdeild Hauka og Helena Sverrisdóttir hafa komist að samkomulagi um að Helena spili með Haukaliðinu á næsta tímabili og er samningur Helenu við Hauka til tveggja ára.

Helena fór frá því að spila upp alla yngri flokka Hauka til TCU í Bandaríkjunum og flakkaði svo um Evrópu sem atvinnumaður þangað til hún kom aftur til Hauka. Aftur hélt Helena út og um mitt tímabil 2018-2019 snéri hún heim og gekk þá til liðs við Val.

Helena skilaði flottum tölum á síðasta tímabili þrátt fyrir að vera í barneignafríi lungað af því en hún var með 13.5 stig, 9.6 fráköst og 4.8 stoðsendingar í 24 leikjum.

Aðspurð sagðist Helena vera spennt fyrir því að koma aftur til Hauka.

„Ég er ótrúlega spennt að vera komin aftur heim. Það er frábær umgjörð og gott fólk í kringum klúbbinn og ég hlakka til að vera komin inní Haukafjölskylduna aftur."