Marc Cucurella, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea ætlar sér ekki að láta klippa á sér hárið þrátt fyrir að Christian Romero, varnarmaður Tottenham hafi beitt fantabrögðum með því að rífa í það í leik liðanna um síðustu helgi.

Um klárt brot var að ræða af hálfu Romero en dómari leiksins sá ekkert athugavert við það og í kjölfarið skoraði Tottenham mikilvægt jöfnunarmark í uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Cucurella sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og einn blaðamannanna á svæðinu spurði hvort hann myndi láta klippa á sér hárið í kjölfarið. ,,Nei aldrei, þetta er minn stíll," var svar Cucurella.

Hann segir að um klárt brot hafi verið að ræða. ,,Þetta eru bara mistök sem dómararinn eða VAR-dómararnir gerðu. Við einblínum ekki of mikið á þetta. Einbeitum okkur bara að því sem við getum stjórnað."