„Ísak lítur kannski út eins og barn – gott og vel, hann er barn, ný­lega 17 ára – en hann spilar eins og full­orðinn leik­maður,“ segir Robert Laul, í­þrótta­frétta­maður Afton­bladet í Sví­þjóð, um Ísak Berg­mann Jóhannes­son, leik­mann IFK Norr­köping í Sví­þjóð.

Ó­hætt er að segja að Robert fari fögrum orðum um þennan stór­efni­lega leik­mann sem slegið hefur í gegn með liði sínu í upp­hafi tíma­bils í Sví­þjóð. Ísak lagði upp tvö mörk í 4-2 sigri Norr­köping á Östersund á laugar­dag. Þá átti Ísak góðan leik í gær­kvöldi þegar liðið gerði 1-1 jafn­tefli gegn Elfs­borg.

Í grein sinni segir Robert að vinstri bak­vörður Elfs­borg, Simon Strand, hafi átt í stökustu vand­ræðum með Ísak sem er fæddur 23. mars árið 2003. Simon fékk gult spjald snemma leiks. Þá hrósar Robert út­sjónar­semi og sendingar­getu Ísaks. Hann spáir því að Ísak eigi bjarta fram­tíð fyrir sér í boltanum.

„Ég ætla að segja eitt um þennan 17 ára Ís­lending. Ísak Berg­mann hefur ein­staka hæfi­leika og í fram­tíðinni munum við líta á það sem heiður að hafa notið þeirra for­réttinda að hafa haft hann í sænsku deildinni í eitt sumar eða tvö. Við erum að tala um leik­mann sem verður margra milljarða virði. Það verður ein­stakt ef hann verður á­fram hjá Norr­köping í haust.“

Norr­köping hefur farið vel af stað í sænsku deildinni en eftir fimm leiki er liðið á toppnum með 13 stig. Ísak var að­eins 15 ára þegar hann gekk í raðir Norr­köping í janúar 2019 frá ÍA á Akra­nesi. Hann er sonur Jóhannesar Karls Guð­jóns­sonar, fyrr­verandi lands­liðs­manns í fót­bolta. Ísak á 21 lands­leik að baki fyrir yngri lands­lið Ís­lands en í þeim hefur hann skorað 11 mörk.