Sandra Sigurðardóttir, markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu var að vonum svekkt eftir niðurstöðu kvöldsins þar sem íslenska landsliðið féll úr leik á Evrópumótinu eftir 1-1 jafntefli gegn Frökkum.

,,Þetta var náttúrulega spennuþrungið og maður hélt í vonina alveg þangað til flautað var til leiksloka. En svona fór þetta bara,“ segir Sandra í viðtali eftir leik en sigur Belga á Ítalíu sá endanlega til þess að Ísland féll úr leik.

Sandra er einn af ljósu punktunum í tengslum við íslenska landsliðið á mótinu en hún var að spila sína fyrstu leiki á EM þrátt fyrir að hafa farið á fjögur stórmót.

,,Ég er ánægð með að vera á þessum stað og ánægð með mína eigin frammistöðu en svekkt með að hafa ekki komist áfram. Er hins vegar stolt af sjálfri mér sem og liðinu öllu.“

Nokkrar breytingar voru gerðar á varnarlínu Íslands fyrir leikinn gegn Frökkum en Sandra telur það ekki hafa komið að sök.

,,Þær stóðu sig vel líkt og mér fannst þær gera í öllu mótinu. Heilt yfir fannst mér við spila varnarleikinn mjög vel í kvöld, við gáfum ekki mörg færi á okkur á móti mjög góðri framlínu franska liðsins,“ sagði Sandra Sigurðardóttir, markvörður íslenska landsliðsins eftir leik kvöldsins.