„Það fyrsta sem maður hugsaði í endurhæfingunni árið 2017 var bara áfram gakk og að horfa á næsta stórmót. Sem betur fer gekk það upp og hér erum við,“ segir Elísa Viðarsdóttir, varnarmaður landsliðsins, aðspurð hvort að vonbrigðin að meiðast skömmu fyrir Evrópumótið 2017 geri það að verkum að Evrópumótið framundan sé enn sætara fyrir vikið.

Aðspurð hvort að hún hafi orðið eitthvað smeyk við að meiðast í leikjum Vals í aðdraganda mótsins var Eyjamærin fljót að skjóta þær hugmyndir niður.

„Neinei, ég spila ekki þannig. Ég mæti á hverja æfingu og leik með það að markmiði að gefa mig alla í þetta. Ég var fyrir vikið aldrei smeyk um að það gæti eitthvað farið úrskeiðis.“

Mótinu var frestað um eitt ár eftir að heimsfaraldurinn gerði það að verkum að fresta þurfti Evrópumóti karla 2020 og telur Elísa að það gæti hentað íslenska liðinu vel.

„Ég held að það hafi verið fínt fyrir hópinn að fá þetta auka ár vegna frestunarinnar. Bæði fyrir þjálfarateymið að koma inn og um leið fengu yngri leikmennirnir tíma til að þroskast og dafna.“

„Við vorum auðvitað á aðeins mismunandi stað þegar við komum saman til æfinga en ég sé ákveðni í augum liðsins og vilja í að gera betur en á síðasta móti.“