Gunn­hildur Yrsa Jóns­dóttir, at­vinnu- og lands­liðs­kona í knatt­spyrnu segist ekki lengur vera stolt af því að spila knatt­spyrnu. Þar spilar hlut­verk sú stað­reynd að Heims­meistara­mótið í knatt­spyrnu sé haldið í Katar, ríki þar sem hin­segin­leiki er ó­lög­legur. Gunn­hildur segir heiminn ekki öruggan stað fyrir sam­kyn­hneigða og að því miður ýti fram­koma Al­þjóða knatt­spyrnu­sam­bandsins (FIFA), undir það.

Gunn­hildur, sem leikur með ís­lenska kvenna­lands­liðinu í knatt­spyrnu sem og banda­ríska at­vinnu­manna­liðinu Or­lando Pride, skrifar pistil sem hún birtir í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Twitter.

Þar bendir hún á þá stað­reynd að knatt­spyrna er ein af vin­sælustu í­þróttum heims.

,,Ég hef sjálf stundað þessa í­þrótt í 27 ár, fyrst ein­göngu sem á­huga­mál en síðar einnig í at­vinnu­mennsku. Og í dag á ég unnustu sem einnig hefur knatt­spyrnu að at­vinnu."

Hún hafi verið það heppin að henni hefur alls staðar verið tekið opnum örmum og nýtur hún stuðnings frá fjöl­skyldu sinni og vinum.

,,Ég er mikil bar­áttu­kona fyrir LGBTQ+ sam­fé­lagið, hef unnið mikið fyrir sam­tökin Special Olympics og ég trúi því að í­þróttir eigi að vera fyrir alla. Í­þróttir þar sem sam­fé­lög koma saman, þar sem fólk getur verið hluti af ein­hverju, þar sem fólk getur verið í öruggu um­hverfi. En þannig er það ekki alls­staðar."

Heimurinn ekki öruggur staður fyrir sam­kyn­hneigða

Or­lando Pride, fé­lags­lið Gunn­hildar, hefur opin­ber­lega lýst yfir fullum stuðningi við bar­áttu sam­kyn­hneigðra fyrir réttindum sínum.

,,Skemmst er að minnast skot­hríðar á skemmti­stað sam­kyn­hneigðra í Or­lando fyrir fá­einum árum þar sem 49 dóu, og nú ný­lega var önnur skot­á­rás á skemmti­stað sam­kyn­hneigðra í Col­or­ado þar sem 5 létu lífið.

Heimurinn er ekki öruggur staður fyrir sam­kyn­hneigða, það er bara þannig, og því miður ýtir fram­koma FIFA undir á­standið."

Gunn­hildur segist í gegnum sinn feril hafa verið stolt af því að spila fót­bolta, að allir væru vel­komnir.

,,En í dag líður mér ekki þannig."

Högg í magann

Hún segist ný­lega hafa lesið rit­gerð eftir Hólm­fríði Maríu Ragn­hildar­dóttur en þar segir á einum stað um sam­kyn­hneigða knatt­spyrnu­menn:

'Hafa þeir því nánast verið ó­sýni­legir en einungis ör­fáir at­vinnu­menn í knatt­spyrnu hafa viður­kennt opin­ber­lega að þeir séu sam­kyn­hneigðir.

Lítinn stuðning er að finna frá knatt­spyrnu­yfir­völdum en sam­kyn­hneigð karla í fót­bolta er tabú um­ræðu­efni sem skapar ó­þægi­legt and­rúms­loft.

Hefur því lengi ríkt vand­ræða­leg þögn í kringum þetta mál­efni þar sem enginn stígur fram og enginn á­varpar það."

Gunn­hildur segir að fyrir flestum er kannski ekkert stór­mál að regn­boga­fyrir­liða­bönd séu bönnuð, en fyrir suma sé það risa­stórt skref aftur­á­bak og al­gjört högg í magann.

,,Að FIFA haldi móti í landi þar sem líf sam­kyn­hneigðra er stefnt í hættu vegna kyn­hneigðar þeirra er ó­á­sættan­legt."

Málið snúist um grund­vallar mann­réttindi

Hún þakkar öllu því fólki sem hefur sagt sína skoðun í tengslum við mótið og sýnt sam­kyn­hneigðum stuðning.

,,FIFA og Infantino for­seti sam­bandsins segja að við ættum að ein­beita okkur að fót­bolta en ekki pólitík, en við segjum á móti að það séu grund­vallar mann­réttindi, sem málið snýst um."

Þá hrósar hún löndum eins og Þýska­landi sem mót­mæltu banni regn­boga­bandsins í fyrsta leik sínum og íranska lands­liðinu sem söng ekki með þjóð­söngnum sínum í leiknum á móti Eng­landi, til að mót­mæla yfir­völdum í Íran.

,,Ég vona að yfir­standandi heims­meistara­móti í knatt­spyrnu og sú um­ræða um stöðu sam­kyn­hneigðra sem tengist því veki at­hygli þannig að fleiri taki þátt í bar­áttunni.

Fót­bolti er fyrir alla

Við getum ekki bara beðið eftir að hlutirnir breytist, heldur verða knatt­spyrnu­yfir­völd, þjálfarar, leik­menn og stuðnings­menn að taka þátt í þeirri bar­áttu að skapa um­hverfi sem bíður alla vel­komna."

Knatt­spyrnu­fólk sé með á­kveðinn vett­vang þar sem það getur staðið upp og látið til sín taka fyrir fólk og hópa sem hafa enga rödd.

,,Fót­bolti er fyrir alla. Punktur," skrifar Gunn­hildur Yrsa Jóns­dóttir, at­vinnu- og lands­liðs­kona í knatt­spyrnu í færslu á Twitter.