Aron Guðmundsson
Laugardagur 30. júlí 2022
10.01 GMT

Vettel á sérstakan stað í Formúlu 1 hjarta Kristjáns Einars Kristjánssonar, fyrrverandi Formúlu 3 ökumanns og núverandi sérfræðings um Formúlu 1. „Þetta er einn merkilegasti ökumaður sem Formúla 1 hefur átt,“ segir Kristján Einar um Vettel í samtali við Fréttablaðið. „Christian Horner, liðsstjóri Red Bull, orðaði þetta best á sínum tíma þegar Vettel tryggði sér sinn fjórða heimsmeistaratitil árið 2013. „Fyrst Fangio, svo Schumacher, svo þú!“ og undirstrikaði á hvaða stall í Formúlu 1 Vettel var kominn.“

Kristján Einar tók sín fyrstu skref sem ökumaður breska liðsins Carlin árið 2007. Þá var Sebastian Vettel einnig ökumaður liðsins í annarri mótaröð.

„Þegar ég er að byrja minn feril með Carlin-liðinu árið 2007, þá er Vettel að keyra fyrir Carlin í World Series by Renault sem var svona hliðarmótaröð Formúlu 2 mótaraðarinnar. Sömuleiðis var bíllinn sem ég ók hjá Carlin árið 2008 bíll sem hann keyrði árið 2007. Þannig að það eru alls konar litlar tengingar sem ég hef við hann en þegar ég kem inn á þessum tíma fannst mér þetta allt svo nálægt. Ég ósjálfrátt hendi mér á bak við hann og Vettel fær árið 2007 tækifæri bæði með BMW Sauber og Toro Rosso í Formúlu 1.“

Kristján viðurkennir að Vettel hafi haft mikil áhrif á sig sem ökumann. „Árið 2008 er hans fyrsta heila tímabil í Formúlu 1 og sömuleiðis mitt fyrsta tímabil í bresku Formúlu 3 mótaröðinni. Á þeim tíma fannst mér svo gaman að sjá einhvern í Formúlu 1 eins og Vettel, það var svo stutt síðan hann að stóð í sömu sporum og ég.“

Eftirminnilegur sigur

Vettel var ekki lengi að stimpla sig inn sem einn af mest spennandi ökumönnum Formúlu 1 árið 2008. Strax á sínu fyrsta tímabili í mótaröðinni vann hann sína fyrstu keppni á hinni sögufrægu Monza.

„Sigur hans á Monza er ein af þessum eftirminnilegustu Formúlu 1 keppnum sem ég hef fylgst með. Hans framganga í Formúlu 1 hvatti mig síðan áfram, hann var svo ungur og hvernig hann bar sig að við þessar krefjandi aðstæður sem Formúla 1 býður upp á var og hefur verið aðdáunarvert.“

Fréttablaðið/GettyImages

Hefur beitt sér utan Formúlu 1

Vettel hefur þróast sem ökumaður og einstaklingur á tíma sínum í Formúlu 1. Hann kemur inn sem ungur og hungraður ökumaður sem hafði það eitt að markmiði að festa sig í sessi í mótaröðinni. Ökumaður sem hafði allt til alls til þess að skara fram úr.

„Vettel hefur síðan breytt svo mörgu í tengslum við Formúlu 1. Bæði áþreifanlegum hlutum sem og óáþreifanlegum. Það sem er mesta syndin í þessu ef við lítum fram á veginn er að Formúla 1 er líklegast að missa stærsta karakterinn af núverandi ökumönnunum úr mótaröðinni.“

Hungrið í árangur hefur fylgt honum allan hans ökumannsferil en hann hefur einnig fundið annan tilgang samhliða því og nýtt sér stöðu sína til þess að benda á hluti sem betur mættu fara, bæði í tengslum við umhverfismál sem og réttindi minnihlutahópa

„Vettel lætur sig allt varða og virðist bara vera mikill eðalmaður. Hann er með stóra rödd og áttaði sig nokkuð snemma á ábyrgðinni og áhrifunum sem hann gæti haft, öðrum til góðs.“

Fljótur að skara fram úr

Vettel tók við stöðu David Coulthard hjá Red Bull Racing árið 2009 og endaði það árið í 2. sæti í stigakeppni ökumanna. Það var síðan tímabilið 2010 sem sigurgangan hófst og Vettel vann heimsmeistaratitilinn fjórum sinnum í röð.

Tímabilið 2013, þar sem Vettel tryggði sér sinn fjórða og síðasta heimsmeistaratitil er enn sem komið er mesta yfirburðatímabil sem sést hefur hjá einum ökumanni í nútíma Formúlu 1 og skákar hann þar með glæstum sigrum sjöfalda heimsmeistarans Sir Lewis Hamilton, ökumanns Mercedes síðari ár.

Það tímabil var keppt á nítján mismunandi brautum og Vettel varð hlutskarpastur á þrettán þeirra og sigurhlutfallið rúm 68 prósent.

„Tímabilin 2010 og 2012 stendur hann af sér mikla baráttu við tvöfalda heimsmeistarann Fernando Alonso, sem ökumaður Red Bull byggir hann liðið upp með sér,“ segir Kristján Einar. ,,Ég ætla ekki að segja að hann hafi gert það nánast einn og óstuddur eins og er stundum sagt í tengslum við Michael Schumacher hjá Ferrari en Vettel er lykilmaður í uppgangi Red Bull sem er nú kjölfestulið í Formúlu 1.“

Fréttablaðið/GettyImages

Gáfaður ökumaður

„Hann er að mínu mati einn besti ökumaðurinn í því að gera keppni fyrir sig þægilega. Þegar hann var hjá Red Bull og náði ráspól, það var voða fátt þá sem gat komið í veg fyrir að Vettel stjórnaði keppni og endaði í fyrsta sæti. Hann er bara einn af þessum klóku ökumönnum sem gerði það sem til þurfti, alltaf.“

Kristján bætir við að Vettel hafi líka alltaf verið gáfaði ökumaðurinn og lagt hart að sér.

„Hann les reglurnar oftar en ekki betur en aðrir ökumenn og það eru til nokkur dæmi þar sem menn héldu að hann væri að brjóta reglurnar en nei, hann bara vissi betur.“

Eftir tímann hjá Red Bull Racing gekk Vettel til liðs við hið sögufræga lið Ferrari þar sem hann var árin 2015-2020. Þar náðist ekki að vinna titla en hann komst næst því árið 2018 er hann laut í lægra haldi í titilbaráttunni fyrir Sir Lewis Hamilton, ökumanni Mercedes.

„Vettel var hjá Ferrari á erfiðum tíma, eftir á hyggja er auðvitað hægt að horfa til baka og segja hvað ef hann hefði náð titlinum fyrir liðið árið 2018? Svo er vitað að hann var kostur sem mögulega næsti ökumaður Mercedes fyrir þeirra sigurgöngu. Vettel hefði geta verið að labba frá mótaröðinni sem ellefufaldur heimsmeistari. Þrátt fyrir allt mun Vettel eftir tímabilið labba frá þessari mótaröð sem einn sigursælasti ökumaður allra tíma. Hann hefur farið víða, snert á mörgu og umfram allt hefur hann verið frábær fyrirmynd sem ber virðingu fyrir andstæðingum sínum og er verðugur heimsmeistari.“

Athugasemdir